giovedì, dicembre 25, 2008

Jólin komu aftur í ár .. en jólaskapið fylgdi ekki með.


Jæja jólin komu aftur í ár eins og undanfarin ár. Jólaskapið stóð eitthvað í mér eins og svo oft áður. Mér þykir það nú reyndar ansi skrýtið því heima hjá mömmu hefur alltaf verið skreytt út úr dyrum og jólin alveg tekin með trukki og dýfu. Það er eins eftir að ég varð næstum fullorðin hafi jólin dottið úr mér, ef það hefur einhver aukaskammt af jólum sem þau eru ekki að nota vinsamlegast sendið þau til mín...TAKK :)

mercoledì, dicembre 10, 2008

Historie d'O



Bókin á náttborðinu mínu núna er Historie d'O. Ansi áhugaverð svo ekki sé meira sagt. Það gekk ekki þrautarlaust að nálgast þessa bók til að geta lesið hana. Ég hringdi í nokkrar bókabúðir hér á höfuðborgarsvæðinu (hafði nú ekki hugmyndaflug fyrr en núna að mögulega gæti hún verið til úti á landi) og fékk þar þau svör að þau ættu ekki þessa bók :( Þannig að ég ákvað að hringja í Borgarbókasafnið og þar fékk ég að vita að hún væri til hjá þeim og ég gæti nálgast hana ef ég vildi. Ég náttúrulega æddi af stað í bókasafnið. Þar hitti ég á voðalega ljúfa konu sem sagði mér eftir smá pjakk á tölvuna að þau ættu ekki þessa bók en það væri til eitt eintak í Þjóðarbókhlöðunni. Svo skvízan æddi þangað næst og fékk að vita að sem betur fer væri þetta eina eintak inni og væri upp á 4 hæð. Þetta kostaði náttúrulega kaup á skírteini í safnið sem ég "fjárfesti" í með glöðu svo sem.

BÓKIN er loksins komin í hús og ég er byrjuð að lesa. Þetta er svolítið annað en það sem ég hef lesið hingað til það get ég sagt ykkur :P Ég byrjaði nefnilega lesturinn í gærkvöldi áður en ég fór að sofa. Mér finnst þetta svolítið sorgleg saga. Einhverjar kvennréttindaherfur mundu sjálfsagt segja að bókin væri full af kvennfyrirlitningu og kvennhatri. Mín skoðun er sú að það er algjörlega túlkunar atriði hvernig þú lest þessa sögu (en þessar blessuðu herfur sjá nú eitthvað neikvætt við flest). Sagan er nefnilega um konu sem er kynlífþræll og verður að einhvers konar hlut. Konan heitir Odelia en er alltaf kölluð O eins og ég sagði sorgleg og pínu dónó á köflum en só vatt :) Ég held að ég geti alveg mælt með henni .... það var nefnilega mælt með henni við mig .... hehe.


sabato, ottobre 25, 2008

Nights in Rodanthe :)


Ég fór ein að sjá myndina Nights in Rodanthe um daginn. Hún er algjört ÆÐI. Mæli tvímælalaust með henni ef þú fílaðir Under the Tuscan sun, Wedding date, The Notebook. If only osfrv. Ég er nefnilega algjör sökker fyrir rómantískum myndum.

Í þessari mynd er eitt flottasta lagið í dag. Love remains með Gavin Rossdale. Hrikalega flottur texti í því lagi :) Endilega YouTube-ið það og hlustið á það. Skemmir ekki að söngvarinn er ekki alveg ljótur ;P

En aftur að myndinni. Eins og ég sagði þá setti hún allan fiðrildabúskapin af stað í maganum á mér og einnig öll tárin í augunum mínum líka (á samt smá eftir fyrir næstu svona mynd). Ég var nú að hugsa um að lýsa myndinn svoldið en ég held að hver og einn sem ætlar að sjá þessa mynd verið að fá að upplifa hana á eigin forsendum (nú hljóma ég eins og þetta sé eitthvað óskarsverðlauna verk sem þetta er alls ekki - eingöngu hriiiikalega góð afþreying). Setninginn It's never too late for a second change lýsir henni mjög vel :) Ég ætla sko að kaupa hana þegar hún kemur út til að eiga svo ég geti horft á hana aftur og aftur og aftur eins ég hef gert með Wedding date og fleiri svona sökkera myndir :)

Neibs ég er ekkert vangefinn í hausnum eins og eldri sonur minn Gunnar Dagur mundi segja...hehe.

Toronto

Um daginn skellti ég mér til Toronto með yngri börnunum mínum og Snorra eldri. Við ákváðum þetta fyrir allt bankaruglið og vorum búin að ganga frá öllu áður en við fórum þannig að það hefði verið tómt tjón að hætta við á síðustu. Enda var óttalega gott að losna úr öllu volæðinu hérna :) ekki að það hafi verið hætt þegar ég kom til baka-skiljanlega svo sem.
Að sjálfsögðu leigði ég bíl fyrir okkur hjá HERTZ áður en við fórum út. Hann var nýttur í hörgul. Við keyrðum meðal annars að Níagrafossunum. Þeir voru STÓRFENGLEGIR must see be for you die. Það var ég hálfplötuð upp í einhvern himinháan turn með frábært útsýni yfir allt og þar á meðal fossana. Ég er nefnilega ævintýralega lofthrædd (sem hefur versnað með árunum) en ég algjörlega neita að láta það stjórna mér. Þannig að fíbblið ég æddi upp í þennan turn. Lyftan sem fór með mig alla leið upp er utan á húsinu og með gleri þannig dýrðin sást í allri sinni HÆÐ!!! Ég hafði þetta af en var alveg lafhrædd svona til að byrja með en svo var ég "bara" hrædd. En þetta var ofboðslega flott útsýni og ég sé ekki eftir því að hafa látið "plata" mig þarna upp.
Við smelltum okkur líka í Canadas Wonderland sem er rússíbanaskemmtigarður. Þar lét ég ekki plata mig í nema eitt tæki og af góðri ástæðu. Ekki það að mig langaði ekki heldur bara gata það ekki. Krakkarnir og Snorri fóru í nokkur tæki þar á meðal Behemoth sem á að vera hæsti stærsti hraðskreiðasti og ógvænlegast rússibani í heiminum í dag.
Svo var náttúrulega aðeins kíkt í búðir fyrst mar var í útlöndum = 4 klst á 5 dögum - geri aðrir betur með það að hafa það svona lítið með 2 unglinga og það annan unglingi kvenkyns.
Myndin sem fylgir með var tekin í einni búðinni. Ég ákvað að láta hana fylgja með af því að hún er svo flott enda myndefnið áberandi fallegt :)

domenica, agosto 31, 2008

Ýmislegt að gerast!!!

Ég komst að því í vikunni að Ragna vinkona mín er flutt til útlanda :( Hún er flutt með börn og buru til Maasticht í Hollandi. Ég sé að vísu einn plús í því, ég get farið til útlanda að heimsækja hana. Að vísu er smá vandamál sem ég þarf að leysa í kringum það. Ég veit ekki alveg hvort ég finna tíma til þess fyrr en næsta sumar en ég mun svo sannarlega leita að tímanum og ef ég dett niður á tíma fyrir sumarið gríp ég hann ;P
Tímaleysið kemur til af því að ég ætla að smella mér í nám í Háskólanum í Reykjavík sem mig hlakkar hriiikalega til að byrja í. Það hefst núna á mánudaginn og er diplomanám í Rekstri og stjórnun. Ég á líka kort í World Class sem ég VERÐ að fara að nýta margfalt betur en ég geri núna. Reyndar er búið að vera svo geggjað veður í sumar svo ég hef ekki tímt að vera inni á hlaupbretti eða í tíma. Í staðinn hef ég farið í klukkutímalangar gönguferðir með Gizmo á kvöldinn eða svona flest kvöld ;P Það er svo geggaðslega gaman, róandi og yndislegt að labba göngustíginn hjá Ægissíðunni og sjá allt fólkið og bara njóta veðursins með Ipodinn í botni er alveg toppurinn á tilverunni.

lunedì, febbraio 11, 2008

Langar svooooo að læra að dansa TANGÓ!!!




Mig er búið að langa heeeeiiiillengi að læra að dansa tangó. Vandinn er "bara" sá að mig sárvantar dansfélaga. Reyndar er ég ekki til í að fá bara hvern sem er með mér í að læra þennan nána dans. T.d koma synir mínir ekki til greina sem dansfélagar í ÞENNAN dans sko. Ég væri mikið meira en til í að fara og læra hip hop dans með þeim ekki spurning :D

Ég og Gunnar Dagur höfum átt það til nokkrum sinnum að taka soulja boy dansinn og alltaf sendir það sama kjánahrollinn niður bakið á systkinum hans í það minnst dæsa þau alltaf .... hehe. Okkur er nokk sama um það sko. Reyndar á ég ennþá eftir að fá að hitta Gunnsó á Prikinu (skemmtistaðnum hans) og taka soulja boy dansinn með honum þar. Mér hefur ekki enn tekist að sannfæra hann um það hvað hann er heppinn að eiga svona tööööööfff mömmu og að hún smelli passi innan um "unglingana" á Prikinu á laugardagskvöldi/nóttu. Hann er ekki að fatta það að liðið er meira eða minna pöddufullt og man ekki eftir neinu daginn eftir......hehe.

Aftur að tangó dans löngun minni. Það er nú bara þannig að það er fátt flottara en karlmaður sem dansar vel :P en ég sé samt ekki alveg fram á það að fá dansfélaga í þetta....ahhh kannski ég bara auglýsi eftir honum. Það er reyndar kannski smá áhættusamt því ef það biði sig nú fram einhver fótafáviti og ég er svo hrikalega aumingjagóð að ég hefði engan vegin hjarta í mér að segja nei við hann. Þannig að ég held það sé bara tvennt í stöðunni fyrir mig annað er að leggja þennan draum á hilluna í smátíma og hitt er að fara á djammið á laugardaginn eftir viku og kanna fótafimi ÍSLENSKRA karlmanna....heheh. Það seinna hjómar sem þokkalegasta plan, ekki satt?

lunedì, gennaio 14, 2008

Justin Timberlake....wow ótrúlega flottur :)


Seinni partinn á laugardaginn síðasta sátum ég og yngri álfurinn minn, Snorri Halldór, og horfðum á Justin Timberlake tónleikana sem voru sýndir á Skjáeinum.

Mikið rosalega voru þetta flottir tónleikar hjá honum. Álfurinn þurfti náttúrulega að nudda mér nokkrum sinnum upp úr því að hann hefði sko farið á akkúrat þessa tónleika með honum í Madison Square Garden. Reyndar fóru báðir strákarnir mínir á þessa tónleika. Það sem ég hefði verið til í að hafa séð þá "live" með þeim.

Justin Timberlake er alveg ótrúlega flottur dansari og semur að því er mér finnst alveg dúndur magnaða danstónlist. Ég væri sko alveg mikið meira en til í að læra nokkur spor hjá honum. Ég verð nú að segja að uppáhaldslagið mitt með honum er My love og því er sko smellt í botn í Ipodinum í hvert sinn sem ég fer út að labba með Gizmo. Hér fyrir neðan er slóð á myndbandið við My love með Justin Timberlake, Timberland og TI:
Tær snilld - NJÓTIÐ <3









domenica, dicembre 23, 2007

Hjálp!!! hvar er jólaskapið??



Úff...ég er orðin nokkuð örvæntingafull. Það er aðfangadagur á morgun og mig sárvantar jólaskapið. Hér er allt á fullu í undirbúningi jólanna, krakkarnir að pakka inn gjöfum og SM inni í eldhúsi að elda eitthvað fyrir jólaboðið hjá mömmu á jóladag.


Kannski kemst ég í jólaskap á morgun (má nú reyndar ekki seinna vera) þegar ég labba inn hjá mömmu og pabba á Kaplaskjólsveginum í lyktina af jólamatnum. Ég verð nú reyndar að viðurkenna það að ég hlakka feitt til að borða jólamatinn á morgun. Það er nefnilega hefð fyrir því að borða svartfugl sem er ótrúlega góður matur og algjör jólamatur því hann er eingöngu í matinn á aðfangadag. Siggi bróðir hans pabba sem býr ennþá á Eskifirði fer og skýtur í jólamatinn fyrir okkur sem mér finnst töff og svoldið frumbyggjalegt og sendir okkur hann svo með flugi..hehe. Ég er nokkuð sannfærð um það að svartfugl ekki ekki í jólamatinn hjá mörgum.


Þegar ég var að alast upp á Eskifirði þá var mikið um hefðir í kringum jólahátíðina. Við borðuðum uppi hjá ömmu og afa í Sólborg á aðfangadag. Þangað kom líka bróðir hans pabba með fjölskylduna sína. Það var þannig að mamma og pabbi sáu um að elda svartfuglinn, Siggi bróðir hans pabba og Gunna elduðu rjúpuna og Dagga amma og Ingvar afi elduðu gæsina. Þegar við vorum búin að borða saman, sem tók nú óhugnanlega langan tíma í minningunni, voru karlarnir settir í það að taka af borðinu og vaska upp, sem mér finnst snilldar hefð. Venjulegast vorum við krakkarnir í því að hjálpa til því við vissum að það yrði enginn pakki opnaður fyrr en búið væri að vaska upp og ganga frá. Loksins þegar allt var klárt í pakkaflóðið skiptum við krakkarnir á að sækja pakka og lesa á þá. Það var oft ansi erfitt þegar einhver fullorðinn fékk bók og hún var látin ganga á milli þeirra og skoðuð...úff. Hjá þessari litlu fjölskyldu var ansi oft mikill stórfjölskyldubragur. Núna er þessari stórfjölskylduhefð viðhaldið hjá mömmu og pabba því þangað förum ég og Snorri með börnin okkar og eyðum aðfangadagskvöldi hjá þeim.


Það er næstum því að ég sé komin í jólaskap við að rifja þetta upp og það sem ég sakna þess að hafa ekki ömmu og afa hjá mér á jólunum.....