domenica, dicembre 23, 2007

Hjálp!!! hvar er jólaskapið??



Úff...ég er orðin nokkuð örvæntingafull. Það er aðfangadagur á morgun og mig sárvantar jólaskapið. Hér er allt á fullu í undirbúningi jólanna, krakkarnir að pakka inn gjöfum og SM inni í eldhúsi að elda eitthvað fyrir jólaboðið hjá mömmu á jóladag.


Kannski kemst ég í jólaskap á morgun (má nú reyndar ekki seinna vera) þegar ég labba inn hjá mömmu og pabba á Kaplaskjólsveginum í lyktina af jólamatnum. Ég verð nú reyndar að viðurkenna það að ég hlakka feitt til að borða jólamatinn á morgun. Það er nefnilega hefð fyrir því að borða svartfugl sem er ótrúlega góður matur og algjör jólamatur því hann er eingöngu í matinn á aðfangadag. Siggi bróðir hans pabba sem býr ennþá á Eskifirði fer og skýtur í jólamatinn fyrir okkur sem mér finnst töff og svoldið frumbyggjalegt og sendir okkur hann svo með flugi..hehe. Ég er nokkuð sannfærð um það að svartfugl ekki ekki í jólamatinn hjá mörgum.


Þegar ég var að alast upp á Eskifirði þá var mikið um hefðir í kringum jólahátíðina. Við borðuðum uppi hjá ömmu og afa í Sólborg á aðfangadag. Þangað kom líka bróðir hans pabba með fjölskylduna sína. Það var þannig að mamma og pabbi sáu um að elda svartfuglinn, Siggi bróðir hans pabba og Gunna elduðu rjúpuna og Dagga amma og Ingvar afi elduðu gæsina. Þegar við vorum búin að borða saman, sem tók nú óhugnanlega langan tíma í minningunni, voru karlarnir settir í það að taka af borðinu og vaska upp, sem mér finnst snilldar hefð. Venjulegast vorum við krakkarnir í því að hjálpa til því við vissum að það yrði enginn pakki opnaður fyrr en búið væri að vaska upp og ganga frá. Loksins þegar allt var klárt í pakkaflóðið skiptum við krakkarnir á að sækja pakka og lesa á þá. Það var oft ansi erfitt þegar einhver fullorðinn fékk bók og hún var látin ganga á milli þeirra og skoðuð...úff. Hjá þessari litlu fjölskyldu var ansi oft mikill stórfjölskyldubragur. Núna er þessari stórfjölskylduhefð viðhaldið hjá mömmu og pabba því þangað förum ég og Snorri með börnin okkar og eyðum aðfangadagskvöldi hjá þeim.


Það er næstum því að ég sé komin í jólaskap við að rifja þetta upp og það sem ég sakna þess að hafa ekki ömmu og afa hjá mér á jólunum.....